Ferðir vor 2014

Stjórnin kom saman yfir dásemdar máltíð (já, súkkulaði kom við sögu) og ákvarðaði ferðir næsta vor.

Margt spennandi er í boði og því miður ekki hægt að hamast á fjöllum alla daga ársins. Því er búið að gera ráð fyrir tveim ferðm á mánuði fram í apríl. Þá verður fundað á ný og stefnan fyrir háskaferðir sumarsins tekin. Sjá fyrirhugaðar ferðir undir viðeigandi síðu.

Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd

Stóri-Meitill og þar í kring

Það voru árrisulir Hvatberar sem lögðu í hann fyrir birtingu að morgni 29. desember 2013 með rúnstykki, kókómjólk og kaffi í mal sínum. Leiðin lá að malarvinnslunni í Lambafelli þar sem bíl var lagt og einn göngugarpur bættist í hópinn, sem taldi þá þrjár stórhuga konur. Við höfðum þann háttinn á að einn bíll var skilinn eftir fyrir neðan Meitilstagl en hinn bíllinn við malarnámuna þar sem gangan hófst. Áætlað var að fara fyrst uppá Stakahnúk, þaðan uppá Stóra-Meitil og að síðustu uppá Litla-Meitil með viðkomu á Milli-Meitlu. Fara síðan niður á Meitilstagl og þaðan heim.

Hér má finna kort: 2013-12-29-Meitilganga

GPS punktar eru neðst í færslunni.

CAM00600
Stakihnúkur

Veður var gott, kalt og NA-strekkingur og nóg af snjó. Þegar við lögðum á Stakahnúk, sem er töluvert brattur, ákváðum við að þvera suður-hlíðina skáhalt upp. En vegna mikilla snjóalaga sem voru frekar laus undir fæti þá færðum við okkur fljótlega upp í klettana þar sem snæviþakin hlíðin var ekki eins brött og við höfðum aðeins fastar undir fæti. Eftir smá brölt þá komumst við nú samt loks upp og sáum sólarupprásina.

CAM00598Sólarupprás séð af Stakahnúk

CAM00581

Ofurhugi á toppnum á Stakahnúk

CAM00584

Hress Hvatberi til í slaginn

Af Stakahnúk var síðan haldið yfir á Stóra-Meitil. Þar á milli nutum við ekki lengur skjóls fjalla og blés hressilega á okkur. Við létum það ekki á okkur fá og sömdum og sungum lofsöngva um göngubroddana sem undir skónum sátu og voru í jómfrúarferð. Einnig var sungið „Hvar er harðfenið?“ við frægt lag Sálarinnar „Hvar er draumurinn?“, en eftir að hafa stanslaust sokkið í fönn fyrsta klukkutímann þá var óskandi að geta flotið um á harðfeni.

CAM00586Lagt á brattann á leið uppá Stóra-Meitil

Lagt var á Stóra-Meitil þegar við komumst í smá skjól fyrir vindinum og þar lét snæviþakin hlíðin aðeins betur undir fót svo tiltölulega auðvelt reyndist að komast þar upp, þó bratt væri. Við urðum ekki vonsviknar því við blasti fjallmyndarlegur gígur og frábær fjallasýn. Vindurinn var þó fljótur að reka okkur af stað aftur og stefnan þá tekin á Litla-Meitil. Á milli meitla er Milli-Meitla sem við gengum hjá og komum svo norðan megin að Litla-Meitil. Þá fyrst fór að hvessa af alvöru og nánast fukum við upp hlíðina. Tiltölulega auðvelt var að ganga upp hlíð Litla-Meitils en þegar um 30 m hækkun var eftir upp að tindi var ákveðið að fara ekki uppá topp, enda var varla standandi í verstu vindhviðunum.

CAM00592Mæðgur við gígbarminn á Stóra-Meitil

CAM00596

Hvatberavinkonur

CAM00593

Hvatberinn sem hélt hún væri pólfari

Áfram var haldið í átt að Meitilstagli þar sem við ætluðum niður. Þá gengum við fram að brún sem við urðum að komast niður. Eftir að hafa skoðað okkur vandlega um var niðurleiðin ákveðin í sameiningu, enda mikilvægt að velja leiðina vel í svona roki svo engin fjúki nú fram af bjargbrún. Það kom í ljós að leiðin hafði verið valin svona prýðilega og fundum við skjól í brekkunni á niðurleið þar sem kátar göngukonur gátu fengið sér nesti.

Síðan var strikið tekið beint niður að Meitilstagli og alla leið niður að bíl. Þetta var hin fínasta ævintýra ganga, við urðum vel vindbarðar og spókuðum okkur um í sönnu vetrarríki. Ekki að furða að við vorum mjög sælar og ánægðar á leiðinni heim.

CAM00599

Þrjár stórhuga konur

Plúsar:

 • Hár ævintýrastuðull
 • Flott útsýni
 • Villtumst ekki
 • Viðráðanleg og skemmtileg leið
 • Engin aumingjaferð

Mínusar:

 • Það vantaði einn Hvatbera 😦
 • Vont færi í byrjun
 • STERKAR vindhviður
 • Komumst ekki á Litla-Meitil

Hildur: 80    Sandra: 71

Tölur:

Lengd: 8 km

Tími: 4 klst og 50 mín (heildar)

Meðalhraði: 2.8 km/klst

Mesta hækkun: 158 m

Gönguhækkun: 396 m

GPS

Stakihnúkur: N 64°00’25,8″ : W 021°27’02.0“

Stóri-Meitill: N64°00’01.7“ : W021°25’56.6“

Milli-Meitla:  N63°59’12.3“ : W 021°26’32.0“

Litli-Meitill: N63°58’34.0“ : W 021°26’15,9“

Meitilstagl:  N 63°57’53.4“ : W 021°26’53.5“

Birt í Uncategorized | Ein athugasemd

Sólrisuganga á Helgafell

Hinar merku Vetrarsólstöður voru í gær. Þeim degi ber að fagna því þá vitum við að botninum er náð og bjartari dagar framundan. Tveir Hvatberar ákváðu að fagna þessu með Sólrisugöngu á Helgafell í Hafnafirði. Þar sem að sólarupprás var áætluð klukkan 11:23 var lagt af stað í rökkri og gengið upp í dögun til að vera á tindinum við sólarupprás.

Ferðin byrjaði á því að Sandra sauður hafði gleymt bakpokanum sínum með flestu hjá Hildi svo Hildur varð að bera allt nesti. Það kom þó ekki að sök, sem betur fer. Við lögðum af stað frá Kaldárseli, fórum í gegnum girðinguna og gengum sem leið lá að skarðinu á milli Valahnúka og Helgafells þar sem við ætluðum upp. Ratvísin var þó ekki meira en svo að okkur tókst að missa af stígnum sem liggur upp frá vörðunum tveimur og héldum lengra þar til við sáum stiku og fórum þar upp. Þannig tókst okkur að lenda í meiri bratta en okkur þótti æskilegt, en höfðum það þó. Það var einu villigöturnar sem við fórum því uppá tindinn komumst við áfallalaust þó að klappirnar hafi verið mjög hálar sumar hverjar. Því miður var skyggnið ekki nógu gott á toppnum en á leiðinni upp sáum við rauðan himinn og nutum umhverfisins í þaula.

Á toppnum skrifuðum við okkur í gesabókinu og fengum okkur svo rúnstykki og kaffi í skjóli. Eftir að hafa rúllað okkur í snjónum og gert snjóengla héldum við síðan til baka niður og vorum bara sáttar við okkur.

CAM00494a

CAM00496

CAM00499

CAM00501CAM00505CAM00506CAM00511CAM00513

Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd

Úlfarsfell í Mosfellsdal

Það voru vetrarlegir Hvatberar sem lögðu á Úlfarsfell þann 8. desember. Lagt var af stað frá bílaplaninu og haldið sem leið lá eftir stikaðri leið. Það var mikil slydda og bleyta og áður en fyrr varði voru Hvatberarnir orðnir blautir í gegn áður komist var upp mesta brattann.

Það orð hefur ekki farið af Hvatberunum að þeir séu sérstaklega ratvísir. Þegar kom upp að fyrstu stóru vörðu sem sást fögnuðum við því innilega og ákváðum að þetta væri tindurinn, alveg þar til við snerum okkur við og sáum að svo var ekki. Því var haldið áfram og upp á hinn rétta topp. Þegar leiðin lág niður blöðruðu Hvatberarnir alveg á fullu og héldu áfram eftir veginum. Það endaði þannig að komið var niður hinu megin af fjallinu, öfugt við byrjunarstað. Þetta er hvorki í fyrsta né síðasta skipti sem Hvatberarnir villast, það fer að verða reglan.

Við fylgdum því rafmangslínum til baka og enduðum á því að taka þennan fínasta gönguhring. Að göngu lokinni var síðan fengið sér brauð í bakaríinu í Mosó.

CAM00453

CAM00456

CAM00459

CAM00458

Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd

Esjuferð í roki

Þá var haldið ef stað í fyrstu formlegu ferð hins nýja fjallafélags Hvatbera. Ákveðið var að byrja á að fara á Esjuna og voru það þrír hressir Hvatberar sem lögðu af stað um hádegisbil. Farin var hefðbundin leið og stefnan tekin í átt að Steini. Sól skein í heiði og virtist færð vera þokkaleg þrátt fyrir smá vind og kulda við Esjurætur. Það átti þó eftir að breytast því það bætti í vindinn eftir því sem ofar dróg og var vindurinn orðinn svo dýrvitlaus þegar við námum staðar við 4. vegskiltið að við sáum okkur ekki annað fært en að snúa við. Svolítill ís var á slóðanum og sandur og snjór farin að fjúka í andlit, við sáum fram á að það ætti einungis eftir að versna og leyfðum því skynseminni að ráða í þetta sinn. Að öðru leyti var veður gott, sól á bláum himni og útsýni gott. Engu að síður var líka gott að komast niður og fá sé smá súkkulaðibita.

Eftir að hafa lagst yfir kosti og galla ferðarinnar var eftirfarandi einkunn gefinn ferðinni: 40 (Hildur: 30, Sandra: 40 og Kristine:50)

Einkun var byggð á:

Plúsar:

 • Hugrekki og ákveðni að gefast ekki upp fyrr en á 4. skilti
 • Ferskleiki eftir að hafa fengið kaldan gustinn í andlitið
 • Gott skyggni og útsýni
 • Hildur vígði nýja skó (mikið gleðiefni)
 • Gott súkkulaði að ferð lokinni
 • Góður andi í hópnum

Mínusar

 • Súkkulaðikexið hennar Hildar fraus
 • Fjúkandi hor
 • VINDURINN SEM VAR Á MÓTI OKKUR
 • Náðum ekki toppnum
 • Klaki og ís á slóða

Næsta ferð verður farin á Keili, 17. nóvember

Hér eru svo nokkrar myndir 🙂

Image

Hildur sátt með nýja gönguskó

Image

Hildur og Kristine áður en bætti í vindinn

Image

Rosalega flott veður…bara SMÁ hvasst

Image

Þessari leist ekki alveg á vindinn

Image

Ekki var haldið lengra að sinni

Image

Þrír fræknir Hvatberar

 

Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd

Stofnfundur Fjallafélagsins Hvatberar

Ferðafélagið Hvatberar hefur nú verið formlega stofnað á stofnfundi og var súkkulaðikaka hafð um hönd eins og segir í reglunum… sem ritaðar voru á téðum fundi. Stofnendur og heiðurshvatberar félagsins eru Kristine, Hildur og Sandra. Drög að dagskrá hefur verið sett fram og er áætlað að ganga á þrjú fjöll fyrir jól.

Dagskráin hljóðar svo:

Esja – 3. nóvember 2013

Keilir – 17. nóvember 2013

Akrafjall – 8. desember 2013

Þá er Helgafell í Mosó fyrsta varafjall og Festrafjall annað varafjall.

Birt í Uncategorized | Færðu inn athugasemd